Félag talmeinafræðinga á Íslandi og Málefli - hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal - og málþroskaröskun buðu til málþings um málþroskaröskun DLD, föstudaginn 8. mars.
Yfirskriftin var “Málþroskaröskun DLD og skólaumhverfið”
Málþingið var mjög vel sótt. Þar gafst kennurum og öðru fagfólki í skólakerfinu einstakt tækifæri á að fræðast um málþroskaröskun DLD og þann kennslufræðilega stuðning sem hægt er að veita þessum hópi í skólaumhverfinu.
Málþingið var sniðið fyrir allt fagfólk sem starfar með börnum og unglingum í skólakerfinu og í þágu þeirra; kennurum, deildarstjórum stoðþjónustu, skólastjórnendum, sálfræðingum, þroskaþjálfum, félagsráðgjöfum, námsráðgjöfum og fl. Málþingið átti erindi bæði foreldrar og fagfólk.
Aðalfyrirlesari var prófessor Victoria Joffe, virtur talmeinafræðingur og deildarforseti háskóla í Essex (School of Health and Social Care at the University of Essex). Victoria Joffe hefur gríðarlega reynslu af starfi með börnum og unglingum með málþroskavanda og er leiðandi í sínu fagi. Hún ferðast um allan heim til að miðla sinni reynslu, til talmeinafræðinga, kennara og annars fagfólks innan menntastofnanna. Hún sérhæfir sig í þjálfun og ráðgjöf kennara og þverfaglegri samvinnu fagaðila í skólakerfinu með það að markmiði að veita börnum með tal- og málörðugleika bestu mögulegu þjónustu. Victoria Joffe sinnir einnig rannsóknum á sviði talmeina og ritstýrir fagtímaritum.
Takmörkuð stuðningsúrræði eru fyrir börn með málþroskaröskun DLD innan skólakerfisins. Félag talmeinafræðinga á Íslandi og Málefli telja gríðarlega mikilvægt að styðja við kennara og annað fagfólk, upplýsa, fræða um einkenni málþroskaröskunar DLD og afleiðingar þess. Mikilvægt er að það séu úrræði í skólaumhverfinu til að mæta þörfum þessa hóps. Til þess þarf öfluga samvinnu milli talmeinafræðinga, heimilis og skóla í takt við lög um farsæld í þágu barna.
Eva Yngvadóttir, foreldri á vegum Máleflis sagði frá sinni upplifun og reynslu af því að eiga barn með málþroskaröskun DLD. Virkt samtal við heimili og skóla er mikilvægur liður í aukinni farsæld barna. Foreldrar upplifa mikið skilningsleysi gagnvart börnum þeirra og er takmarkaður stuðningur veittur í skólanum. Þörf er á heildrænum stuðningi fyrir þennan hóp barna, í námi, félagslegum stuðningi og almennum skilningi á vandanum.