1. grein - Heiti og lögheimili
Nafn samtakanna er MÁLEFLI, hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein - Hlutverk samtakanna
Tilgangur samtakanna er að vinna að málefnum barna með tal- og málþroskaröskun. Þau vinna meðal annars að hagsmuna- og réttindamálum barnanna, unglinganna og aðstandenda þeirra. Þau vinna að rannsóknum, fræðslu til skóla, foreldra, fagfólks og stuðla að auknum skilningi almennings og stjórnvalda á þessu málefni.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með fræðslufundum, rannsóknum, miðlun upplýsinga, greinarskrifum o.fl.
3. grein - Félagsmenn
Félagar eru aðstandendur barna með tal- og málþroskaröskun svo og fagfólk sem með einum eða öðrum hætti vinnur að málefnum barnanna. Aðeins þeir félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið hafa atkvæðisrétt á aðalfundi og eru kjörgengir í stjórn. Greiði félagsmaður ekki árgjald í fjögur ár í röð skal hann felldur út af félagaskrá.
4. grein - Stjórn
Formaður skal kosinn sér til tveggja ára í senn. Auk formanns eru í stjórn 5 menn og skulu þeir kosnir til tveggja ára í senn. Ekki skulu allir víkja úr stjórn á sama tíma og þarf því í byrjun að hafa helming stjórnar í 3 ár en aðra í tvö ár. Formaður boðar fyrsta fund nýrrar stjórnar eins fljótt og auðið er og skal hann haldinn eigi síðar en tveimur vikum eftir aðalfund. Á þeim fundi skal ný stjórn skipta með sér verkum.
Stjórnin fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Allar veigameiri ákvarðanir stjórnar skulu teknar á formlegum stjórnarfundum og skulu haldnar fundargerðir um slíka fundi. Stjórnarfundur telst ályktunarhæfur séu a.m.k. þrír stjórnarmenn mættir. Standi atkvæði á jöfnu við atkvæðagreiðslu á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns úrslitum. Verði stjórn félagsins óstarfhæf af einhverjum orsökum skal þegar í stað boðað til félagsfundar sem kýs nýja menn í stjórn í stað þeirra sem látið hafa af störfum.
Stjórn félagsins er jafnframt heimilt að setja á laggirnar vinnuhópa eða nefndir til að sinna sérstökum málefnum á vegum félagsins.
5. grein - Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn árlega á bilinu 1. mars til 30. apríl og skal boða hann skriflega með a.m.k. 2 vikna fyrirvara.
Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar
a) Kosning fundarstjóra
b) Kosning fundarritara
c) Skýrsla stjórnar, flutt af formanni
d) Gjaldkeri leggur fram skriflega endurskoðaða reikninga félagsins
e) skýrsla vinnuhópa
f) Kosning stjórnar, sbr. 4. grein.
g) Kosinn skoðunarmaður/menn reikninga
h) Árgjald ákveðið. Foreldrar greiði eitt árgjald
i) Lagabreytingar
j) Önnur mál
6. grein - Félagsfundir
Stjórn félagsins skal boða til félagsfundar a.m.k. tvisvar á ári auk aðalfundar. Komi fram skrifleg ósk um fund frá a.m.k. 15 atkvæðisbærum félagsmönnum ber stjórn að boða til hans. Fundurinn skal haldinn innan þriggja vikna frá því að slík ósk berst til stjórnarinnar á sannanlegan hátt. Á slíkum fundi er meðal annars heimilt að bera fram vantrauststillögu á stjórn félagsins og telst slík tillaga samþykkt ef a.m.k. tveir þriðju hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Verði slík tillaga samþykkt skal kjósa nýja stjórn á sama fundi.
7. grein - Félagsslit
Ákvörðun um slit félagsins verður aðeins tekin á aðalfundi. Telst ákvörðunin aðeins lögmæt ef a.m.k. 90% atkvæðisbærra fundarmanna samþykkir tillögu um slit félagsins. Sama gildir um samruna félagsins við önnur félög. Tillögur þessa efnis verða því aðeins teknar til umfjöllunar að þær hafi verið sendar út með fundarboði.
Eigi félagið einhverjar eignir þegar til slita þess kemur skulu þær renna óskiptar til Rannsóknarstofu þroska, mál og læsi barna við Háskóla Íslands
8. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á stofnfundi samtakanna
9. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, hafi þá breytingartillögum verið dreift með fundarboði. Breytingarnar eru lögmætar ef aðalfundur er löglegur og tveir þriðju hlutar fundarmanna greiða þeim atkvæði.