Stofnun félagsins og starfsemi fyrstu 10 árin
Málefli stofnað árið 2009
Samtökin Málefli voru stofnuð þann 16. september 2009. Mikill áhugi var á stofnun samtakanna og mættu um 100 manns á stofnfundinn.
Helstu markmið samtakanna eru að:
-
vekja athygli á málefnum barna með tal- og málþroskaröskun.
-
veita fræðslu til foreldra, kennara og annarra aðila sem standa þessum hópi nærri.
-
vinna að auknum réttindum þessa hóps.
-
styðja við og hvetja til rannsókna á sviði tal- og málþroskaröskunar.
-
vera vettvangur þar sem foreldrar barna geta hist og borið saman bækur sínar, rætt saman og fengið stuðning hvert af öðru.
Málefli er aðildarfélag að Öryrkjabandalagi Íslands
Málefli er eitt af aðildarfélögum Öryrkjabandalags Íslands. Innan þess hafa samtökin öruggan bakhjarl sem hægt er að sækja ráðgjöf og styrki til. Þar starfar meðal annars fjölmiðlafulltrúi sem veitir ráðgjöf eftir þörfum, ásamt fleiri aðilum.
Öryrkjabandalag Íslands hefur áratuga reynslu af baráttu fyrir réttindum og þjónustu þeirra sem á þurfa að halda og er því mikilvægur stuðningsaðili Máleflis.
Fjölskylduferðir, fræðsla og leikhúsferðir
Frá því samtökin Málefli voru stofnuð hafa þau staðið fyrir ýmsum uppákomum og viðburðum. Boðið hefur verið upp á fjölskylduferðir m.a. til Stokkseyrar og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og svokallaða kaffihúsahittinga.
Staðið hefur verið fyrir fræðslu fyrir foreldra, kennara og starfsfólk sem vinnur með börnum. Einnig hefur börnum og fjölskyldum þeirra verið boðið í leikhús. Síðast liðin ár hefur félagsmönnum verið boðið á leiksýningarnar Bláa hnöttinn, Ronju ræningjadóttur og Matthildi. Sýningarnar hafa verið vel sóttar og mikil ánægja með framtakið.
Samtökin hafa verið skráð í Hlaupastyrk þar sem hægt hefur verið að styðja við hlaupara sem hlaupa fyrir Málefli í maraþoninu. Af því tilefni hefur verið búið til auglýsingaefni, t.d. bolir og buff með merki Máleflis. Mikill stuðningur hefur verið af frumkvæði hlauparanna í þágu samtakanna.
Skýrsla á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins
Árið 2012 var gefin út skýrsla um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Stjórn Máleflis á þeim tíma óskaði eftir að úttektin færi fram. Menntamálaráðuneytið bar ábyrgð á framkvæmdinni. Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni á vefnum.
Málþing á degi málþroskaröskunar árið 2019
Í tilefni af 10 ára afmæli Máleflis árið 2019 var haldið málþing sem bar heitið “Það eru mannréttindi að geta átt samskipti við aðra”. Málþingið var haldið á sama degi og alheimssamtökin Raising Awareness of Developmental Language Disorders (RADLD) héldu dag málþroskaröskunar til að vekja athygli á málefninu. Málþingið fór fram í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.
Á málþinginu komu fram:
-
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson setti málþingið,
-
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra flutti erindi,
-
Foreldrar sögðu frá reynslu sinni, talmeinafræðingar sögðu frá stöðu talþjálfunar á Íslandi
-
og að því loknu var málþinginu skipt í tvennt.
-
Þóra Sæunn Úlfsdóttir talmeinafræðingur flutti fyrirlestur með áherslu á upplýsingar um hvernig kennarar geta stutt við nám barna með málþroskaröskun og
-
hins vegar voru fyrirlestrar frá þremur talmeinafræðingum með áherslu á upplýsingar fyrir foreldra.
-
Álfhildur Þorsteinsdóttir fjallaði um málþroska og einkenni málþroskaröskunar.
-
Hildigunnur Kristinsdóttir fjallaði um úrræði fyrir börn í yngri bekkjum grunnskólans.
-
Linda Björk Markúsardóttir fjallaði um úrræði fyrir eldri börn grunnskólans og unglinga.
-
Umræða um málþroskaröskun í fjölmiðlum
Málþingið var vel sótt og mikilvæg umræða um málefni barna með málþroskaröskun átti sér stað í sjónvarpi og útvarpi. Hægt er að nálgast glærur frá málþinginu á heimasíðu Máleflis.
Háskóli Íslands lýstur fjólubláu ljósi
Um kvöldið var Háskóli Íslands lýstur upp með fjólubláu ljósi til að vekja athygli á málefnum barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun. Margar byggingar víða um heim voru lýstar upp með sama lit af sama tilefni.
Málefli á samfélagsmiðlum
Facebook - tveir hópar
Málefli
Málefli - Hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun
Gerast félagi í Málefli
Hægt er að skrá sig í Málefli á vefsíðu Máleflis. Við tökum glöð við fleiri félagsmönnum og viljum gjarnan fá sem flesta í lið með okkur til að geta stutt enn frekar við börn og unglinga með tal- og málþroskaröskun.
Við tökum við ábendingum um verkefni sem Málefli getur stutt við og komið að. Hafir þú eitthvað í huga eða bara einfaldlega áhuga á málefninu, vertu í sambandi við okkur á malefli@malefli.is.