STAÐREYNDIR UM MÁLÞROSKARÖSKUN DLD

Málþroskaröskun DLD vísar til þess þegar einstaklingur á í töluverðum erfiðleikum meðað læra, skilja og nota mælt mál.


Málþroskaröskun DLD er tiltölulega nýtt hugtak (frá 2017) þótt frávik í máli og málþroska hafi verið þekkt um aldir. Notuð hafa verið ýmis heiti til að lýsa erfiðleikum af þessu tagi, t.d. málgallar, málhömlun og sértæk málþroskaröskun svo eitthvað sé nefnt. Hugtakið sem fólk hefur komið sér saman um að nota í dag í hinum enskumælandi heimi er Developmental Language Disorder, eða DLD (Bishop o.fl., 2016, 2017), sem á íslensku er kallað málþroskaröskun DLD.

Fimm atriði sem þú þarft að vita um málþroskaröskun DLD

 1. Málþroskaröskun DLD er dulin skerðing. Fólk með þessa röskun gerir fleiri villur í máli, notar einfaldari setningar eða á jafnvel erfitt með að skipuleggja samræður. Þessir erfiðleikar eru ekki alltaf augljósir þeim sem ekki hafa sérhæft sig á þessu sviði.

 2. Málþroskaröskun DLD kemur snemma fram hjá börnum og viðhelst fram á fullorðinsár.

 3. Málþroskaröskun DLD kemur fram hjá fólki um allan heim, óháð því hvaða tungumál það talar.

 4. Málþroskaröskun DLD er algeng. Fram hefur komið í rannsóknum að eitt af hverjum 14 börnum glími viðeinkenni DLD.

 5. Málþroskaröskun DLD þarfnast athygli. Hún getur haft áhrif á félagslega og tilfinningalega velferð einstaklingsins og hvernig honum vegnar í lífinu, jafnt í skóla sem vinnu.

Málþroskaröskun DLD: Orsakir

 • Erfðir og umhverfi: Stökkbreyting gena veldur aukinni áhættu á málþroskaröskun DLD. Vísindamenn hafa ekki skilgreint öll gen eða gena samsetningar sem stuðla að röskuninni. Áhrif gena geta verið ólík eftir aðstæðum. Það felur í sér að einstaklingar sem erfða sinna vegna eru í aukinni áhættu geta verið mislíklegir eftir umhverfi til að vera með DLD (Spinith og fl., 2004). Ímyndum okkur tvö börn með nákvæmlega sömu erfðafræðilegu áhættu á DLD. Ef annað barnið fæðist eftir fulla meðgöngu en hitt fæðist fyrir tímann er fyrirburinn í meiri áhættu á DLD (Sansaviniog fl., 2010). Höfum þó í huga að það liggur engin ein orsök fyrir og áhættan tengd erfðum og umhverfi snýr að líkindum, ekki fullvissu. Tvennt er mikilvægt að vita: 1) Við eigum margt ólært um orsakir DLD og 2) sú skoðun að DLD sé afleiðing þess að foreldrar tali ekki nóg eða lesi ekki fyrir börn sín á ekki við rök að styðjast.
   

 • Taugalíffræði: Málþroskaröskun DLD, líkt og aðrar taugaþroskaraskanir, felur í sér breytileika í heilaþroska. Þessi breytileiki getur verið óljós og er ólíklegur til að koma fram í hefðbundinni rannsókn á heila. Hluti breytileikans felur í sér hlutfall gráa efnisins og stærð ólíkra svæða í heilanum. Heilasvæðin sem um ræðir geta tengst heilaberkinum í framheila-og gagnaugablaði og rákótta hluta heilabotnskjarnans (e.basal ganglia) (Krishnan ogfl., 2016; Mayes o.fl., 2015). Vísindamenn eiga margt eftir ólært um heilaþroska barna með DLD og hvernig hanner frábrugðinn hefðbundnum þroska heilans.

Málþroskaröskun DLD: Tengdir erfiðleikar

 • Tengsl við aðrar raskanir: Málþroskaröskun DLD kemur fram samhliða öðrum röskunum, t.d. ADHD, lesblindu eða námserfiðleikum, a.m.k. oftar en talist getur stafa af tilviljun einni saman (Young og fl., 2002).Einstaklingar með DLD hafa oft einnig væg frávik í hreyfiþroska (Cheng og fl., 2009). DLD og einhverfa eru tvær ólíkar raskanir en eiga það sameiginlegt að veikleikar geta verið í félagslegri málnotkun. Munurinn er þó sá að stagl kennd hegðun,áhugi og athafnir einkenna einhverfu en ekki DLD.

 • Geðheilsa: Börn með málþroskaröskun DLD eru líklegri til að vera með kvíða og þunglyndi en jafnaldrar með dæmigerðan málþroska. Þau glíma einnig oftar við hegðunar vanda sem getur ágerst með aldrinum (Curtis o.fl.,2018). Börn með DLD sem eru jákvæðað eðlisfari, eru sjálfstæð í hugsun og eiga auðvelt með samskipti við jafnaldra og fullorðna þróa síður með sér geðheilsuvanda (Lyons o.fl., 2018).

Málþroskaröskun DLD: Horfur

 • Læsi og árangur í skóla: Þótt málþroskaröskun DLD hafi áhrif á talað mál eiga einstaklingar með röskunina einnig oft í erfiðleikum með ritað mál, þ.e. lestur, stafsetningu og ritun (Joye o.fl., 2019; Simikin og Conti-Ramsden,2006). Sterkur grunnur í töluðu máli styður við lestur og ritun barna. Það liggur því ljóst fyrir að börn með DLD eru í aukinni áhættu á að eiga í erfiðleikum með ritað mál.

 • Félagslegir erfiðleikar: Tungumálið gegnir veigamiklu hlutverki í samskiptum við aðra. Börn með málþroskaröskun DLD eiga oftar íerfiðleikum í félagslegum samskiptum en önnur börn (Forrest o.fl., 2020). Vísbendingar eru um að börn með DLD séu líklegri til að lenda í einelti en jafnaldrar (Rennecke o.fl., 2019). Hins vegar hefur komið fram að börn sem eru í góðu tilfinningalegu jafnvægi lenda síður í slíkum aðstæðum (van den Bedem o.fl., 2018).

 • Atvinna: Fullorðnir einstaklingar með sögu um málþroskaröskun DLD eru ólíklegri en aðrir til að vera í starfi sem krefst sérhæfingar og vinna síður fulla vinnu. Hins vegar ber þess að geta að sumir þessara einstaklinga eru með góða almenna menntun og fagmenntun (Conti-Ramsden o.fl., 2018). Enn eru of margir nemendur með DLD sem fá ekki þann stuðning sem þeir þarfnast til að ná bestum mögulegum árangri í námi og vinnu (Dockrell o.fl., 2019).

Málþroskaröskun DLD: Þjónusta fyrir börn

 • Greining: Greining á málþroskaröskun DLD byggir á að skoða hegðun og færni frekar en að rannsaka heilastarfsemi eða greina blóðsýni. Skoðað er hvernig einstaklingi gengur að læra, skilja og nota talað og ritað mál. DLD er greint þannig að talmeinafræðingur leggur fyrir viðeigandi mælitæki sem meta málþroska.
  Niðurstöðurnar eru síðan bornar saman við niðurstöður sem vænta má út frá aldri og í sumum tilvikum kyni einstaklingsins. Það er einnig mikilvægt að meta áhrif málþroskaröskunar á líf viðkomandi einstaklings.
  Það er gert með því að fylgjast með félagslegum samskiptum, íhuga frammistöðu í skóla eða á vinnustað og með því að taka viðtal við þann sem í hlut á eða fjölskylduna. Það sem einkum getur leitt til greiningar á DLD er sambland af niðurstöðum úr greiningarprófum og hald góðra vísbendinga um að slök málfærni valdi viðkomandi einstaklingi erfiðleikum í daglegu lífi (Bishop og fl.,2016). Þar sem fylgiraskanir geta verið til staðar með DLD getur einnig verið mikilvægt að meta önnur svið en tungumálið, t.d. hreyfifærni og athygli.

 • Íhlutun/meðferð: Til að íhlutun beri árangur verður hún að vera af miklum gæðum og standa yfir í nægilega langan tíma. Nokkrar íhlutunar-eða meðferðarleiðir eru í þróun og fer þeim fjölgandi (Law og fl., 2015). Íhlutunarleiðir sem talmeinafræðingar beita í samvinnu við kennara og annað starfsfólk í leik-og grunnskólum geta m.a. aukið orðaforða og færni í frásögn og hljóðkerfisvitund barna (Archibald, 2017). Börn með alvarleg einkenni DLD njóta góðs af einstaklingsmiðaðri meðferð sem veitt er af talmeinafræðingi (Ebbels og fl., 2019).

 

Málþroskaröskun DLD: Vitundarvakning meðal almennings og RADLD herferðin

 • Þörf fyrir vitundarvakningu um málþroskaröskun DLD meðal almennings. Almenningur þekkir lítt til málþroskaröskunar DLD sem endurspeglast í því að ekki eru alltaf borin kennsl á börn sem glíma við þennan vanda auk þess sem rannsóknum á þessu sviði er ábótavant (McGregor, 2020). Hið alþjóðlega RADLD* teymi vinnur að því að vekja athygli á DLD með YouTube myndböndum/stöðvum, vefsíðum og á samfélagsmiðlum. Ár hvert er einnig haldið upp á dag málþroskaröskunar DLD (DLD Awareness Day) um miðjan október.**​
   

*RADLD stendur fyrir „Raising Awareness of Developmental Language Disorders“
**Hafa ber í huga að hér er eingöngu vísað í erlendar rannsóknir þar sem þetta er þýðing á erlendu efni.
Málefli (malefli.is) og Félag talmeinafræðinga á Íslandi (talmein.is) standa að degi málþroskaröskunar DLD á Íslandi.

Heimildir: