Sértæk málþroskaröskun

Þóra Sæunn Úlfsdóttir M.S. CCC-SLP, Talmeinafræðingur

Málefli, hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskafrávik var stofnað 16.september 2009. Á hverju hausti byrja um 4000 sex ára börn í grunnskólum landsins. Á sama tíma hefja um 300 börn skólagöngu með erfiðleika við að nota mál og tal, ef hægt er að nota erlendar viðmiðunartölur (Tomblin, Smith, & Zhang, 1997). Sum barnanna eiga erfitt með að skilja mælt mál, önnur eiga erfitt með að tjá sig og sum þeirra eiga erfitt með hvorutveggja, að skilja mælt má og að tjá sig.

Til eru börn sem þroskast að mestu leiti á dæmigerðan hátt nema á sviði máls og tals. Þau eru með eðlilega heyrn. Hreyfingar eru eins og jafnaldra. Taugaþroski er eðlilegur. Verkleg greind er innan marka dæmigerðra barna en ekki munnleg greind. Þetta hefur verið kallað sértæk málþroskaröskun á íslensku (Specific Language Imparment)(Leonard, 1998). Nánari greining á vanda þessara barna hefur sýnt að í samanburði við jafnaldra eiga þessir krakkar erfitt með að muna orð og læra merkingu orða, þau tjá sig en setningar eru styttri og einfaldari. Þau sleppa oft málfræðiendingum og smáorðum þegar þau mynda setningar. Þau misheyra oft það sem sagt er við þau. Framburður er stundum óskýr. Þau eru ekki eins dugleg og jafnaldrar að biðja um útskýringar ef þau skilja ekki það sem fram fer og þau leiðrétta ekki viðmælanda sinn ef þau eru misskilin. Í samanburði við jafnaldra hafa þau sjaldnar frumkvæði að samskiptum við önnur börn og þeim gengur verr að leysa úr ágreiningi ef upp koma deilur í barnahópnum. Ofangreint er aðeins stutt upptalning á einkennum sem geta komið fram í málþroska barna með sértæka málþroskaröskun. Þessi einkenni valda því að börnin fá ekki þá mikilvægu æfingu í að nota mál og tal sem nauðsynleg er til að ná tökum góðum tökum á málfari. 6 ára byrjandi í skóla hefur margra ára reynslu af erfiðleikum við að skilja mælt mál og tjá sig.

Þegar þessir einstaklingar hefja skólagöngu hafa þau frá fyrsta degi minni möguleika á að tileinka sér námsefnið en skólafélagarnir því þau hafa ekki það vald á máli og tali sem miðað er við að 6 ára börn hafi. Mörg þessara barna eiga erfitt með að læra að lesa m.a. vegna frávika í málþroska og erfiðleika við undirstöðuatriði lesturs. Þar með er hafinn ferill neikvæðara upplifana í skólanum. Þeim gengur illa að læra að lesa sér til gagns og ánægu og eiga þá jafnframt erfitt með að tileinka sér námsefnið. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt að þessi hópur sem stendur sig illa á samræmdum prófum í íslensku, í fjórða bekk (Jóhanna Einarsdóttir, Amalía Björnsdóttir, & Ingibjörg Símonardóttir, 2004).

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar til að reyna að átta sig á orsökum sértækrar málþroskaröskunar. Ekki hefur verið hægt að finna eina orsök fyrir seinkun í málþroska heldur bendir margt til að samspil margra þátta valdi þroskaröskuninni. Mjög sennilegt er að þróunin byrji strax frá upphafi máltökunnar hjá flestum og að heilastarfsemi barna með seinkaðan málþroska sé hægari en barna með dæmigerðan málþroska. Búið er að finna ákveðin gen sem bera ábyrgð á sumum þáttum málþroskans s.s. að greina á milli hljóða og að læra beygingu sagnorða. Svo eru önnur atriði sem virðast háð umhverfi s.s. að læra að hlusta (Bishop, Adams, & Norbury, 2006). Flestar rannsóknir sem gerðar eru á börnum með frávik í málþroska eru gerðar á fimm ára börnum. Frammistaða barna með sértæka málþroskaröskun er þá borin saman við fimm ára jafnaldra og yngri börn sem eru með svipaðan málþroska og börnin með frávik. Mál og tal er flókið fyrirbrigði og það virðist vera að til að mælast með frávik þarf að vera seinkun á fleiri en einum þætti máls og tals. Einkennin koma oft snemma fram en það er tilhneiging til að bíða og sjá til hvort ekki rætist úr ástandinu. Sum börn ná jafnöldrum sínum smá saman en ekki öll. Það hefur reynst ógerningur að greina á milli þessara hópa. Það er því frekar döpur niðurtaða ef verið er að bíða og sjá til þangað til sumir hafa náð jafnöldrum sínum í þroska. Börnin sem þurfa aðstoð fá hana ekki og dýrmætur tími fer til spillis. Í rannsókn þar sem málþroski þriggja ára enskumælandi barna með málþroskafrávik var borin saman við börn sem höfðu svipaða getu í málþroska. Þau reyndust vera um tveimur árum yngri en rannsóknarhópurinn eða um eins árs aldurinn. Þetta undirstrikar hinn mikla mun á getu barnanna og hann hverfur ekki með aldri hjá þeim börnum sem eru með málþroskafrávik, það verður bara erfiðara að sjá hann því börnin læra að tala. Það er því ekki ástæða til að bíða og sjá til þegar grunur vaknar um frávik í málþroska á forskólaaldri. Rannsóknir benda til að tal- og máþroskafrávikin fylgi mjög mörgum þeirra upp alla skólagönguna þó einkennin breytist með árunum (Thordardottir, 2008; Wadman, Durkin, & Conti-Ramsden, 2008).

Horfur fullorðinna einstaklinga með alvarleg einkenni seinkunnar á málþroska geta verið daprar. Bresk rannsókn á 17 karlmönnum sem greindir voru með sértæka málþroskaröskum við 6 ára aldur sýndi m.a. að enginn þeirra tók samræmt próf 16 ára og að enginn þeirra var fær um sjálfstæða búsetu þegar þeir voru 36 ára. Þeir bjuggu allir á vegum félagsþjónustunnar eða fjölskyldna sinna (Clegg, Hollis, Mawhood, & Rutter, 2005).

Að bíða og sjá til er úrræði sem er óásættanlegt og að forðast að skilgreina vandan hjálpar ekki börnum sem læra ekki málið sem fyrir þeim er haft. Börn með sértæka málþroskaröskun þurfa sérhæfð úrræði til að hjálpa þeim að ná tökum á tilverunni.

Þóra Sæunn Úlfsdóttir M.S. CCC-SLP,

Talmeinafræðingur

Bishop, D. V. M., Adams, C. V., & Norbury, C. F. (2006). Distinct genetic influences on grammar and phonological short-term memory deficits: evidence from 6-year-old twins. Genes, Brain & Behavior, 5(2), 158-169. doi: 10.1111/j.1601-183X.2005.00148.x

Clegg, J., Hollis, C., Mawhood, L., & Rutter, M. (2005). Developmental language disorders – a follow-up in later adult life. Cognitive, language and psychosocial outcomes. Journal of Child Psychology and Psychiatry, 46(2), 128-149.

Jóhanna Einarsdóttir, Amalía Björnsdóttir, & Ingibjörg Símonardóttir. (2004). Málþroskamælingar í leikskóla og forspárgildi þeirra um námsgengi í grunnskóla. Uppeldi og menntun – Tímarit Kennaraháskóla Íslands(13), 67-91.

Leonard, L. B. (1998). Children with Specific Language Impairment (2000 paperback edition ed.). London: The MIT Press.

Thordardottir, E. T. (2008). Language-Specific Effects of Task Demands on the Manifestation of Specific Language Impairment: A Comparison of English and Icelandic. J Speech Lang Hear Res, 51(4), 922-937. doi: 10.1044/1092-4388(2008/068)

Tomblin, J. B., Smith, E., & Zhang, X. (1997). Epidemiology of specific language impairment: Prenatal and perinatal risk factors. Journal of Communication Disorders, 30(4), 325-344.

Wadman, R., Durkin, K., & Conti-Ramsden, G. (2008). Self-Esteem, Shyness, and Sociability in Adolescents With Specific Language Impairment (SLI). J Speech Lang Hear Res, 51(4), 938-952. doi: 10.1044/1092-4388(2008/069)