Komið þið sæl.

Mig langar að deila með ykkur reynslu sonar minns á því að vera í sérdeild og í almennum bekk.

Óskar Freyr er 15 ára drengur sem er greindur með alvarlega málþroskaröskun. Skólaganga hans hófst mjög brösulega þar sem kennarar hans viðurkenndu ekki vandann. Í dag gengur allt mjög vel og skólinn stendur sig afbragðs vel í að koma á móts við hans námsvanda sem fylgir hans röskun.

Í 1. – 7. bekk var hann í almennum bekk, en þá var ákveðið að hann færi í sérdeild skólans, í bóklega kennslu, því honum leið mjög illa inn í bekk. Hann fylgdi sínum bekk áfram í öllu verklegu. Mjög fljótlega fór ég að sjá mun á honum. Honum leið betur, grét sjaldnar og var ekki eins áhyggjufullur og áður.

 

Enska er uppáhalds bóklega fagið hans. Í dag talar hann og skilur ensku mjög vel en les hana ekki.

Þegar hann var í 8.bekk þá gerðu þau sjálfsmat í sérdeildinni. Einkuninn átti að vera frá 0-10 stig. Hann gaf sér 1 í ensku. Kennarinn hans var mjög hissa út af því að hann Óskar sýndi alltaf mikinn áhuga í ensku og hann var jákvæður og duglegur að vinna í tímum. Þegar kennarinn spurði Óskar út í þetta vildi hann fátt segja.

Ég reyndi að fá hann til að tala um þetta en það gekk seint. Þegar hann loksins opnaði sig þá brast hann í grát og sagði: „ mamma ég skil ekki verkefnin…….hinir krakkarnir eru með miklu erfiðari verkefni en ég og samt skil ég ekkert !!…þetta er svooooo erfitt !“

Mér krossbrá því það fór alveg framhjá mér að hann væri kominn inn í bekk í enskukennslu, þegar ég spurði hann þá var svarið: „ Nei ég er ekki núna inn í bekk, þetta var þegar ég var með bekknum í ensku!“.

Ég spurði hann því um hæl: „Hvernig líður þér núna ? Núna í sérdeildinni í ensku ?“

Hann: „ vel, mjög vel nú skil ég verkefnin og ég er ekki með léttustu verkefnin !“

Hann leið ennþá fyrir það, tæpum 2 árum seinna að hafa þurft að vera með sínum bekk í enskukennslu, vera sá sem skildi ekkert, horfa upp á alla aðra geta svo miklu miklu meira en hann og vera útundan. Hann fékk ekki verkefni við hæfi og það braut hann geinilega mikið niður. Hans sjálfsálit var í molum yfir þessu.

Ég vildi deila þessu með ykkur í þeirri von að öll börn þessa lands fái verkefni við hæfi í öllum fögum. Oft á tíðum þurfa þau líka að hafa kost á frekari sérúrræðum eins og sérkennsludeild. Til að finna það og sjá hvað þau eru flott og fá að njóta sín á sínum forsendum. Að sjálfsögðu eiga þau að fá allt þetta inn í almennum bekk, en því miður er það ekki alltaf raunin. Skóli án aðgreiningar / Skóli fyrir alla…. hvað er það ? Flott á pappírum en við eigum langt í land með að ná þessu og þangað til að við náum þeim markmiðum er ég himinlifandi að barnið mitt þarf ekki að vera tilraunadýr í þeirri vinnu, líða fyrir störf og hugmyndafræði mismunandi kennara. Hann hefur val ! Hann hefur val um það hvort hann vilji vera inn í bekk eða í sérdeildinni. Ég spyr hann reglulega og hann vill ALLS ekki fara inn í bekk aftur. Hann ætlar alltaf að vera í þessu flotta umhverfi þar sem hann fær kennslu við hæfi í sérdeildinni þar sem honum er tekið eins og hann er.

Móðir