• Stjórn Máleflis

Spurningar til stjórnmálaflokkanna

Stjórn Máleflis, sem eru hagsmunasamtök í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun spyr um afstöðu stjórnmálaflokkanna varðandi eftirfarandi: 1. Hvernig ætlið þið að minnka þann langa biðlista til talmeinafræðinga sem börn og unglingar með tal- og málþroskaröskun (e. Developmental Language Disorder, DLD) búa við í dag? Biðtíminn er rúmlega 24 mánuðir í dag. 2. Hvernig ætlið þið að beita ykkur fyrir því að ákvæði verði tekið út úr rammasamningi á milli sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga og Sjúkratrygginga Íslands um að útskrifaðir talmeinafræðingur fái ekki að starfa sem sjálfstætt starfandi fyrr en tveimur árum eftir að hann fær starfsleyfi frá Landlækni ? Áður en að þessu ákvæði kemur hefur viðkomandi verið í 6 mánaða handleiðslu hjá talmeinafræðingi. Þetta ákvæði hindrar nýliðun og viðheldur núverandi allt of löngum biðlista. 3. Mun þinn flokkur beita sér fyrir því að gerð verði ný úttekt eins og gerð var árið 2012 á stöðu barna með tal- og málþroskaröskun (DLD)? https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/ritogskyrslur/skyrsl_stodu_barna_ungm_malthroskarosk_2012.pdf Svör stjórnmálaflokkanna má sjá hér fyrir neðan


Píratar


Svar við spurningu 1

Stefna Pírata í heilbrigðis- og geðheilbrigðismálum hefur alltaf miðað að fullfjármögnuðu heilbrigðiskerfi. Þar vantar enn mikið upp á. Aðeins með aukinni áherslu hins opinbera á þessa málaflokka er hægt að vinda ofan af biðlistavandanum. Mikill skortur er á þjónustu frá talmeinafræðingum og því jafnframt mikilvægt að við fáum sem flesta talmeinafræðinga út í atvinnulífið. Það má t.a.m. gera með hvatningu til fólks um að skrá sig í nám í talmeinafræðum, eins og aðrar greinar hafa gert með vitundarvakningu og herferðum. Mikilvægasta skrefið er þó að fullfjármagna heilbrigðiskerfið, til að hægt sé að gera það að aðlaðandi starfsvettvangi fyrir fólk sem getur hugsað sér að verða talmeinafræðingur.


Svar við spurningu 2


Það er ljóst að talmeinafræðingar hafa að menntað sig mikið og eru vel undirbúnir fyrir störf sín. Það að nemendur séu í sex mánaða handleiðslu áður en þeir fá leyfi til að starfa sem talmeinafræðingar sýnir skýrt að það sé mjög faglega staðið að námi talmeinafræðinga. Við styðjum talmeinafræðinga í baráttu sinni við að komast á samning við Sjúkratryggingar Íslands eftir að sex mánaða handleiðslu í starfi líkur. Nú þegar búið er að samþykkja svipað hjá sjúkraþjálfurum og því sjáum við fátt því til fyrirstöðu að það sama eigi við um talmeinafræðinga. Það að geta ekki komist á samning við SÍ fyrr en eftir tvö ár í starfi getur skipt sköpum fyrir einstaklinga sem að eru að velja sér námsvettvang. Okkur þykir fórnarkostnaðurinn við það að fá ekki niðurgreiðslu fyrir nýútskrifaða talmeinafræðinga vera of mikill og það gangi gegn hagsmunum almennings.


Svar við spurningu 3


Grunnstefna Pírata, sem allt okkar starf byggir á, er mjög skýr: Píratar taka upplýstar ákvarðanir út frá gögnum og rökum. Við teljum því að úttekt sem þessi gæti hæglega orðið góður grunnur að upplýstu samtali um þennan mikilvæga málaflokk.


Vinstri græn


Svar við spurningum 1 og 2:


Það er vilji Vinstri grænna að breyta því skilyrði sem nú er í samningnum um að útskrifaðir talmeinafræðingar megi ekki vera sjálfstætt starfandi fyrr en tveimur árum eftir að hann fær starfsleyfi. Unnið er að nýjum samningum við talmeinafræðingu. Vinstri græn leggja áherslu á að hlustað verði á kröfur talmeinafræðinga í þeirri endurskoðun. Sú endurskoðun skilar sér svo vonandi í styttri biðlistum eftir þjónustunni, enda er nauðsynlegt að stytta þessa bið.


Svar við spurningu 3:


Já. Það er mikilvægt að sem réttastar upplýsingar liggi fyrir um stöðu barna hverju sinni. Það er því mikilvægt að fara í nýja úttekt á stöðu barna með tal- og málþroskaröskun.


Framsókn


Framsókn setur svar við ofangreindum þremur spurningum fram í einu lagi með neðangreindum hætti. Þær eiga við þjónustu við börn almennt, hvort sem þau eru að kljást við tal- og málþroskaröskun eða annan sambærilegan vanda sem samfélagið þarf að hjálpa þeim og foreldrum þeirra að takast á við. Framsókn beitti sér á kjörtímabilinu fyrir róttækri endurskipulagningu á þjónustu við börn undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra. Það er verkefni komandi kjörtímabils að innleiða þá kerfisbreytingu um land allt. • Framsókn ætlar að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda til opinberrar þjónustu í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem mun fækka alvarlegum tilvikum. Eitt flóknasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda síðustu áratugi er sú staðreynd að börn hér á landi þurfa oft að bíða óhóflega lengi eftir greiningu eða þjónustu við mögulegum vanda. Oft er jafnvel um að ræða þekktan vanda sem þarfnast staðfestingar opinberra aðila til að geta hlotið nauðsynlega þjónustu. • Framsókn ætlar að stytta biðlista eftir greiningarúrræðum með því að fjölga sérhæfðu starfsfólki og grípa fyrr inn í aðstæður barns til að koma í veg fyrir alvarlegan vanda. • Framsókn vill að barnið sé ávallt í forgangi. Framsókn vill að komið verði á þjónustutryggingu, sem þýðir að ef einstaklingur fær ekki heilbrigðis- eða félagsþjónustu hjá hinu opinbera er honum vísað til einkaaðila, samanber danska módelið. • Framsókn vill leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun og samþættingu ólíkra stuðningskerfa svo skólakerfið bregðist skjótt við ef barn glímir við erfiðleika.


Sjálfstæðisflokkurinn


Svar við spurningu 2

Áður en að þessu ákvæði kemur hefur viðkomandi verið í 6 mánaða handleiðslu hjá talmeinafræðingi. Þetta ákvæði hindrar nýliðun og viðheldur núverandi allt of löngum biðlista.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að börn og unglingar um allt land hafi greiðan aðgang að þjónustu talmeinafræðinga. Slík þjónusta verður að byggja á rammasamningi sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga og Sjúkratrygginga Íslands. Gildandi samningur er meingallaður.

Ákvæði um að nýútskrifaðir talmeinafræðingar þurfi að starfa í tvö ár til að komast inn á rammasamninginn, gengur gegn jafnræðisreglu, vinnur gegn hagsmunum barna og unglinga og kemur í veg fyrir nauðsynlega nýliðun og fjölgun talmeinafræðinga. Sjálfstæðisflokkurinn lítur svo á að hvorki Sjúkratryggingar né starfandi talmeinafræðingar geti réttlætt slíkt ákvæði.

Nauðsynlegt er að endurskoða rammasamninginn. Fella verður út umrætt ákvæði en um leið taka tillit til tæknilegar lausna. Gera verður talmeinafræðingum að nýta þarf rafrænar/stafrænar lausnir í auknum mæli til að þjóna börnum og unglingum um allt land.

Svar við spurningu 3


Svarið er einfalt: Já. Nauðsynlegt er slíkt úttekt sé gerð reglulega og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti.