Örvun hljóðkerfisvitundar

Höfundar Ásthildur Bj. Snorradóttir og Valdís B. Guðjónsdóttir

Með hljóðkerfisvitund er átt við þann hæfileika að geta hugsað og talað um hljóðkerfi málsins. Hljóðkerfið telst vera hluti af málþroskanum og má því segja að hljóðkerfisvitund sé sá hluti málþroskans sem hefur með lesturinn að gera. Þegar við höfum áttað okkur á að málið er sett saman af hljóðum og þegar við getum talað um þessar smáu einingar málsins þá fyrst erum við tilbúin að læra að lesa.

Fjöldi rannsókna gefa til kynna að börn sem hafa styrka hljóðkerfisvitund eiga auðveldara með að læra að lesa og skrifa en þegar hljóðkerfisvitundin er slök þá eru líkur á lestrar- og stafsetningarerfiðleikum. Hljóðkerfisvitundin hjálpar okkur að skilja meginatriði stafrófsins, hún hjálpar börnum að átta sig á að stafur er tákn fyrir ákveðin málhljóð og hún hjálpar barninu að átta sig á orði í samhengi þótt það heyri bara hluta orðsins. Margar rannsóknir sýna fram á að upplýsingar um frammistöðu 4-6 ára barna í hljóðkerfisvitund, þ.e. þekkingu á stafrófinu, umskráningu og öðrum þáttum læsis, geta sagt fyrir um væntanlega námsframvindu í lestri.

Ekki er mælt með að beðið sé með lestrarnámið fyrr en barnið er „tilbúið“ til að læra að lesa. Þegar barnið byrjar í grunnskólanum þarf það að vera tilbúið í lestrarnámið. Þess vegna tókum við okkur til fyrir nokkrum árum og skrifuðum bókina Ljáðu mér eyra, undirbúningur fyrir lestur sem er kennslubók fyrir börn með verkefnum sem örva hljóðkerfisvitund. Bókin hefur notið mikilla vinsælda og er notuð bæði í leikskólum og grunnskólum auk þess sem hún er notuð á heimilum til þess að undirbúa börn fyrir væntanlegt lestrarnám.

Bókin kom fyrst út árið 2001 og kemur núna út í endurbættri útgáfu ásamt verkefnum á geisladiski en hún hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið. Bókin byggist á aðgengilegum verkefnum sem þjálfa hljóðkerfisvitund og stuðla þannig að aukinni lestrarfærni. Rannsóknir sýna að með því að þjálfa hljóðkerfisvitund er hægt að bæta lestrarfærni og hentar bókin foreldrum, kennurum og öðrum uppalendum til að vinna með börnum.

Verkefnunum í bókinni er skipt í 10 kafla sem hver um sig kemur inn á ákveðinn þátt hljóðkerfisvitundar. Reynt var að raða verkefnunum upp þannig að fyrstu kaflarnir koma inn á þætti sem ættu að vera auðveldari viðureignar og börn ná venjulega fyrst tökum á, en þeir síðari koma inn á þætti sem þau ná tökum á síðar. Í upphafi hvers kafla eru útskýringar á þeim þætti hljóðkerfisvitundar sem verið er að þjálfa hverju sinni. Kaflarnir eru þessir: Rím. Hæfileikinn til að geta rímað, byggir á því að þekkja úr orð sem ekki ríma og að geta búið til rím. Sundurgreining, að sundurgreina setningar í orð. Sundurgreining, að sundurgreina orð í atkvæði/orðhluta. Hljóðgreining, að finna fyrsta hljóð í orði. Hljóðgreining, að finna síðasta hljóð í orð. Hljóðflokkun. Að geta flokkað saman orð með sama upphafshljóði. Orðhlutaeyðing. Að taka samsett orð í sundur, eyða hluta af samsettu orði og að búa til samsettorð. Sundurgreining, að sundurgreina orð í hljóð. Hljóðtenging. Að læra að hlusta á einstök hljóð og tengja þau saman. Stafir og hljóð. Kynning á bókstöfunum og hvernig þeir eru myndaðir.

Slök hljóðkerfisvitund getur verið einn af fimm undirliggjandi þáttum dyslexiu. Þess vegna nýtist bókin ágætlega fyrir börn sem ekki fara eðlilega af stað í lestrarnáminu eða eru í áhættuhópi barna með lestrarerfiðleika. Best er ef byrjað er á að greina vanda barnsins. Vandamálið þarf að vera skilgreint og verkefnin notuð á markvissan hátt til þess að þjálfa börnin þar sem þau eru veik fyrir í lestrarferlinu. Mikilvægt er að málörvun sé skilgreind út frá þörfum barnsins til þess að árangur náist.

Málhömlun og vandamál tengd hljóðkerfisvitund endurspeglast oft í lestrarörðugleikum. Því er mikilvægt að til séu aðgengileg verkefni til þess að þjálfa hljóðkerfisvitund og stuðla þannig að aukinni lestrarfærni hjá þessum börnum. Það hefur einnig sýnt sig að öll börn hafa gaman af að leika sér með málið með því að fást við skemmtileg verkefni.

Allt málkerfið er virkt þegar börn fást við prentletur. Rannsóknir hafa sýnt að hljóðkerfisvitund er tengd úrvinnslu á prentletri. Góð lestrargeta byggist meðal annars á umskráningu á hljóðum í tákn, málskilningi og hljóðkerfisvitund. Börn þurfa að geta skipt frá málskilningi yfir í umskráningu á hljóðum í tákn. Þetta þýðir til dæmis að skilja að sólin er ekki bara gul heldur er hægt að skrifa orðið s-ó-l. Allir þessir þættir eru mikilvægir fyrir góða lestrargetu. Samband lestrar og máls er augljóst og mikilvægt að talmeinafræðingar noti sérfræðiþekkingu sína til þess að taka þátt í þverfaglegri vinnu kennara og annarra sérfræðinga sem hjálpa börnum með lestrarörðugleika. Þetta er mikilvægt vegna skýrra tengsla máls og lestrar.

Á laugardaginn 16. október stendur verslunin A4 fyrir þemadegi með áherslu á byrjendalæsi og mikilvægi leiks í lestrarnámi barnsins. Við höfundar bókarinnar Ljáðu mér eyra, undirbúningur fyrir lestur verðum í búðinni verðum í versluninni og munum svara fyrirspurnum og veita góð ráð og lestrarnám ungra barna.

 

Ásthildur Bj. Snorradóttir, MLS

talmeinafræðingur

Talþjálfun Reykjavíkur

 

Valdís B. Guðjónsdóttir, MA

talmeinafræðingur

Mál og tal, talþjálfunarstofa