Örvun hljóðkerfisvitundar

Höfundur Hrafnhildur Ragnarsdóttir

Hrafnhildur Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík 1948. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968. Árið 1973 útskrifaðist hún með Licence-des-lettres frá Háskólanum í Aix en Provence. Árið 1974 með Matrice de psychologie, og doktorsgráðu frá sömu stofnun 1990. Hrafnhildur hefur starfað við Kennaraháskóla Íslands frá 1976, sem lektor, dósent og loks frá 1990 sem prófessor. Hrafnhildur er gift Pétri Gunnarssyni rithöfundi og eiga þau tvo syni og eitt barnabarn.Í dag, miðvikudag, heldur Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við KHÍ, fyrirlestur um máltöku og læsi í Kennaraháskólanum.

„Það er alkunna og staðfest með rannsóknum hve gott vald á máli í ræðu og riti er mikilvægt, ekki aðeins fyrir árangur í námi heldur einnig almenna velgengni í samfélaginu. Málþroski barna og læsi eru nátengd, enda tvær ólíkar miðlunarleiðir sama fyrirbæris, tungumálsins,“ segir Hrafnhildur. „Minn fyrirlestur fjallar um málþroska og læsi barna frá 5 til 9 ára aldurs, og mikilvægi þess að huga bæði að skammtíma- og langtímamarkmiðum á þessu aldursskeiði. Á þessum aldri er bæði kennurum og foreldrum mjög umhugað um að börn nái tökum á lestrartækninni, enda getur léleg lestrarhæfni staðið fyrir þrifum seinna meir á námsferlinum. Mikil vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi hljóðvitundar barna í þessari fyrstu lestrarkennslu.

Til þess að verða læs í þeim skilningi að geta notað bæði talmál og ritmál í öllum þeim flókna tilgangi sem þarf, er lestrartæknin hins vegar bara fyrsta skrefið. Strax og lestæknin: að setja saman orð úr ólíkum hljóðum eða stöfum, er komin, fer að reyna á lesskilning og ritun á texta í samfelldu máli, en það er færni sem byggist á fleiri og flóknari vitsmunalegum og mállegum fyrirbærum en greining hljóða í orði.“

Hrafnhildur segir lesskilning og þróað læsi byggjast á öllum þáttum í þroska barns og þekkingu, en mestu skipti þó orðaforði annars vegar, og færni í uppbyggingu og skilningi á samfelldu máli hins vegar: „Í fyrirlestrinum fjalla ég um rannsóknir á orðaforða og á orðræðufærni íslenskra barna, og hversu mikill munur er þar á milli einstaklinga.

Í rannsókn sem ég gerði og tók til 165 barna á aldrinum 5-6 ára, reyndist fjórðungur hópsins vera með frásagnarhæfni í orðræðu sambærilega við þriggja ára meðalbarn, á meðan besti fjórðungur var með hæfni sambærilega við 7 til 9 ára börn. Hætt er við að þessi mikli einstaklingsmunur fari með öllu framhjá kennurum yngstu barnanna, ef áherslan er öll lögð á þjálfun í notkun minnstu eininga málsins. Það er ekki fyrr en reyna fer á lesskilning á miðstigi grunnskóla að þessi mikli munur kemur í ljós og er þá þegar orðinn mikil hindrun fyrir þá sem verst standa.

 

Þessi börn þarf að finna fyrr, og leggja almennt miklu meiri áherslu á orðaforða og orðræðu í samfelldu máli í lok leikskóla og byrjendakennslu, til að fyrirbyggja þannig fyrirsjáanleg vandamál í lesskilningi og málnotkun eins og á reynir í skóla. Vitundarvakning hefur orðið meðal uppeldisstétta um mikilvægi þess að greina sem fyrst og aðstoða börn sem talin eru í áhættuhópi vegna slakrar hljóðvitundar en misgóðri undirstöðu lesskilnings og læsis í víðri merkingu hefur hins vegar verið gefinn mun minni gaumur.“

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 15.mars 2006