Málþroski er undirstaða náms

Málörvunarkerfið „Tölum saman“ e. Bjartey Sigurðardóttir og Ásthildi Bj. Snorradóttir

Málþroski er undirstaða náms
Margar rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna fylgni málþroska við námsárangur,“ segir Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur hjá Talþjálfun Reykjavíkur og annar höfunda að nýju málörvunarkerfi, „Tölum saman“, ætlað börnum með málþroskafrávik og tvítyngdum börnum. Höfundarnir þær Ásthildur og Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og sérkennari við Setbergsskóla, byggja á áratuga reynslu af vinnu með málörvun í leik- og grunnskólum. „Það sem skiptir máli er að grípa inn í málþroska barnanna sem fyrst ef eitthvað er að,“ segir Ásthildur. „Snemmtæk íhlutun, er hugtakta mikið og þýðir hreinlega að byrja nógu snemma.“ Bjartey segir einkennin augljós allt frá því börnin eru nokkurra mánaða gömul. „Svo sem ef þau halda ekki augnsambandi og fylgja hlutum eftir með augunum, fara ekki að leika sér með hljóð eða eru sein til máls,“ segir hún.

 

Aðgengilegt og auðvelt
„Þetta kerfi hentar mjög vel börnun, sem eru með málþroskafrávik til dæmis í tengslum við orðaforða, málfræði, heyrnræna úrvinnslu, setningauppbyggingu og framburð,“ segir Ásthildur. „Við höfum tekið eftir því að um of er einblínt á framburð hjá börnum en framburður er einungis einn þáttur málþroska.“ Þær Ásthildur og Bjartey leggja áherslu á að ekki megi gleyma að halda áfram að vinna með skilgreinda málörvun þegar grunnskólinn tekur við af leikskólanum, en fram til þessa hafi skort heilstætt íslenskt málörvunarkerfi sem er aðgengilegt og auðvelt í notkun fyrir leik- og grunnskóla, jafnt sem foreldra. „Í leikskólum eru mjög góð greiningar- og skimunartæki, sem finna þessi börn og þess vegna er hægt að vinna fyrirbyggjandi starf með tilliti til lestrar og/eða námsörðugleika. Það er staðreynd að allt of mörg börn fara með þessi málþroskafrávik áfram í grunnskólann,“ segir Ásthildur. „Þess vegna útbjuggum við þetta málörvunarkerfi, sem hentar elstu börnunum á leikskólanum og yngstu börnunum í grunnskólanum. Kerfið hentar einnig eldri börnum sem eru með þessi málþroskafrávik og börnum sem eru tvítyngd og eru að læra íslensku sem annað tungumál,“ segir Bjartey. „Þetta kerfi hentar þeim mjög vel, þó að þeirra erfiðleikar séu annars eðlis en hjá börnum með málþroskafrávik.“

Finnast fyrr
Þær eru sammála um að foreldrar séu mjög meðvitaðir um þroska barna sinna og í læknisskoðun við þriggja og hálfs árs aldur er lögð fyrir þau málþroskaskimun. „Þá finnast strax þessi börn sem eru með frávik,“ segir Ásthildur. „Önnur ótvíræð vísbending er ef barn er ekki byrjað að mynda orð í kringum eins árs aldur. En hvort málþroskafrávik er algengara en áður eða hvort við vitum einfaldlega meira um þessi mál en við vissum þá er erfitt að fullyrða um það. Við erum duglegri að finna þessi börn og kannski eru þetta börnin sem kölluð voru tossar í gamla daga eða þau sem ekki gátu lært vegna þess að ekki var vitað hvernig best væri að leiðbeina þeim við lærdóminn.“

Grein þessi birtist í morgunblaðinu 28.september 2005