Mál og sértæk málþroskaröskun

Tjáskipti eru svo sjálfsagður hlutur hins daglega lífs að við hugsum vart um þau. Félagsleg samskipti við fjölskylduna, vini og vinnufélaga eru svo áreynslulaus að það er erfitt að ímynda sér erfiðleika gagnvart þeim. Það er ekki nema við þurfum að halda ræður eða þurfum að fara í starfsviðtal að okkur verður hugsað um tal- og málhæfileika okkar. Raunin er sú að ef okkur myndi kvíða fyrir tjáskiptum þá værum við haldinn stöðugum kvíða.

Tal og mál eru þau verkfæri sem við notum til tjáskipti. Tjáskipti fela í sér að móta og senda boð og að taka við og skilja boð. Þau innihalda sendanda og viðtakenda en ekki endilega mál. Hvað er tal? Tal er myndun og röðun málhljóða við tjáskipti. Það byggir á hæfileikanum að hreyfa talfærin og myndast með rödd (hreyfingu raddbanda) og munnhreyfingum. Hvað er þá mál? Mál er táknkerfi sem maðurinn notar til tjáskipta. Það er byggt á takmörkuðum fjölda hljóða sem hvert um sig ber enga merkingu. Hljóðunum er raðað saman í merkingarbærar einingar, þ.e. myndön og orð sem síðan mynda setningar og stærri heildir. Mál skiptist í fjóra  meginflokka  sem eru:

  1. Hljóðkerfisfræði; lýsing á málhljóðum og myndun þeirra.

  2. Setningafræði; röðun orða í setningu, byggt upp eftir reglum sérhvers tungumáls.

  3. Merkingarfræði; innihald orða og skilningur.

  4. Málhegðun; notkun málsins við mismunandi aðstæður, mismunandi málsnið eftir aðstæðum hverju sinni.

 

Hafa ber í huga að málið er samtvinnað þrátt fyrir þessa flokkun þar sem flokkanir fjórir hafa áhrif hver á annan.

Þróun málsins fylgir ákveðnu ferli sem er kynnt í kennaranámi og því ekki viðfangsefni þessa pistils.

Málþroskaröskunum er gjarnan skipt í tvo hópa:

  1. Málþroskaröskun: Málerfiðleikar sem eru afleiðingar annarra erfiðleika eða fatlana, t.d. CP-fötlun, seinkun í málþroska, alvarlegri heyrnarskerðingu, greindarskerðingu, einhverfu, tilfinninga- og hegðunarerfiðleika, vanörvunar eða þess að barn skortir grunntungumál (elst upp við tvö eða fleiri tungumál).

  2. Sértækar málþroskaraskanir (SMR): Málerfiðleikar sem ekki er hægt að rekja til annarra fatlana. Þetta geta verið raskanir á einum eða fleirum meginflokkum máls en því fleiri meginflokkar sem raskast , því meiri er vandi einstaklingsins.

 

Sértæk málþroskaröskun er yfirheiti ýmissa málraskanna sem verða á málkerfi barna. Börnin hafa málerfiðleika þrátt fyrir þá staðreynd að þroski þeirra að öðru leyti virðist vera eðlilegur. Ef börn hafa SMR 5 ára  eru líkur til þess að þau sýni áfram slíka erfiðleika á unglingsárum ásamt öðrum vandamálum tengdum vitsmunum og námi. 40-50% barna með tal- og málþroskaraskanir þróa með sér gerðræn vandamál en alvarleiki erfiðleikanna hefur þar umtalsverð áhrif. Meirihluti barna með SMR hefur hreyfivandamál að einhverju leyti. Ekki er vitað hve stór hópur barna á Íslandi á við SMR að stríða.

Fræðimenn hafa leitast við að rannsaka orsakir SMR en erfitt hefur reynst að finna undirliggjandi orsakir. Margar og mismunandi skýringar á SMR hafa verið settar fram. Sumar eru tengdar þáttum sem eru sértækir í máli en aðrar eru tengdar vitrænum þáttum og skynjunarþáttum. Vitrænu- og skynjunarþættirnir virðast í fyrstu vera mótsögn við skilgreininguna á SMR því þar er tekið fram að annar þroski SMRbarna sé eðlilegur. En SMRbörn eru að mælast fyrir neðan jafnaldra sína þegar um sértækan vitrænan þroska eða skynjunarhæfileika er að ræða.

Tallal hefur t.d. bent á að heyrnarskynjun SMRbarna sé önnur en jafnaldra. Í rannsókn sem hann gerði á SMRbörnum og jafnöldum þeirra kom í ljós að SMRbörnum gengur verr en jafnöldum sínum í verkefnum sem innihalda skynjun eða röð hlustunaratburða þegar hljóð eða tónar koma fram sem hröð runa eða í stuttan tíma.

Rannsóknir Gathercole og Baddeleys á SMRbörnum og börnum sem standa jafnt þeim í málþroska hafa leitt til þess að erfiðleikar SMRbarna tengjast erfiðleikum þeirra við að halda heyrnarskynjunum í minni, jafnvel aðeins í stuttan tíma og þessir erfiðleikar séu tengdir hæfileikanum að læra ný orð.

Leonard heldur því fram að SMRbörn séu aðeins næm fyrir sterkustu einkennum málsins, því þau eiga síður í erfiðleikum með myndun sem hefur skýra setningarlega merkingu. SMRbörn etja kappi við málhömlun en eiga þó málkerfi sem sýnir seiglu og sveiganleika.

Aðrar rannsóknir telja að SMR séu hluti af útbreiddari vanda sem inniheldur hreyfiþroskaraskanir og önnur vandamál. SMR birtast í mörgum myndum og er engin viðurkennd flokkun til. Flokkunarkerfið er jafn fjölbreytt og rannsakendurnir sem að því koma.

 

Slök heyrnræn úrvinnsla

Hvað er slök heyrnræn úrvinnsla? Það er þegar barnið heyrir en hlustunin er til vandræða. Einstaklingur með slaka heyrnræna úrvinnslu á í erfiðleikum með að hlusta eða vinna úr heyrnrænum upplýsingum þrátt fyrir að hafa eðlilega heyrn.

Barn með slaka heyrnræna úrvinnslu;

– misskilur oft munnleg fyrirmæli eða spurningar.

– er seint að bregðast við munnlegum fyrirmælum og spurningum.

– segir oft ha?

– þarfnast oft endurtekinna leiðbeininga og útskýringa.

– á erfitt með að skilja og halda athygli þegar umhverfishávaði er mikill.

– getur átt í erfiðleikum með hljóðgreiningu eða sundurgreiningu málhljóða.

– gæti haft slakan málskilning.

– gæti átt við námserfiðleika eða hegðunarvanda að stríða.

Úrræði fyrir börn með slaka heyrnræna úrvinnslu:

– draga úr hávaða í umhverfinu bæði heima og í skóla.

– huga að hljómburði kennslustofunnar/rýmisins.

– athuga að staðsetning barnsins í rýminu henti því.

– nota sjónræn hjálpargögn.

– ná augnsambandi við barnið.

– spyrja barnið (hvað var verið að tala um?), sýndu því skilning og stuðning t.d. með því að tala hægar, nota einfaldar útskýringar og halda augnsambandi.

 

TRAS skráning á málþroska ungra barna

Út er komið nýtt efni til skráningar á málþroska  ungra barna, TRAS skráningarlistinn. TRAS (tidelig registrering af språk), er ætlað leikskólakennurum til að fylgjast með máltöku og þróun málþroska 2-5 ára barna svo að þeir geti á markvissan hátt stuðlað að góðum málþroska barna og gripið inn í með markvissum úrræðum fyrir þau börn sem þess þurfa.  Það er íslenski TRAS hópurinn sem hefur þýtt og staðfært TRAS listann  undanfarin 4 ár.  

Hópinn skipa þær Hólmfríður Árnadóttir talmeinafræðingur í Árborg, Ingibjörg Símonardóttir talmeinafræðingur í Garðabæ, Margrét Tryggvadóttir sérkennari í leikskólanum Örk á Hvolsvelli, Björk Alfreðsdóttir sérkennslufulltrúi á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og Hrafnhildur Karlsdóttir leikskóla- og sérkennsluráðgjafi á Skólaskrifstofu Suðurlands. 

Hópurinn hefur unnið að þýðingu og innleiðingu á TRAS en leikskólakennarar og annað fagfólk í tólf leikskólum á Suðurlandi og sex leikskólum í Hafnarfirði, tóku þátt í innleiðingunni með því að skrá færni rúmlega 100 barna á aldrinum 2-5 ára, í málnotkun við hinar ýmsu aðstæður í leikskólanum, skólaárin 2009-2011.  TRAS-skráningarlistinn kom fyrst út í Noregi árið 2003 á  vegum fræðimanna við háskólastofnanir þar í landi og er nú almennt notaður  í leikskólum á öllum Norðurlöndum og víðar.

Leikskólakennarar hafa nú í höndum gott hjálpartæki, sem þeir nota þegar þeir byggja upp málörvunaráætlanir þar sem börn eru þjálfuð í að nota málið í leik og starfi.

Skólaskrifstofa Suðurlands og Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar hafa frá upphafi styrkt verkefnið í formi   námskeiðshalds, fundaraðstöðu og staðið straum af kostnaði vegna ljósritunar.

Námsmatsstofnun gefur efnið út og annast sölu þess og námskeiðshald. Íslenski TRAS hópurinn mun annast kennslu á námskeiðunum en aðeins þeir sem hafa sótt námskeið hafa leyfi til að nota TRAS efnið. Fyrsta  námskeiðið er í gangi á Selfossi núna og þau næstu  verða  haldin í Gerðubergi í Reykjavík,á Akureyri og á Austurlandi, en þess má geta að mikil ásókn er í námskeiðin.

Skráningar á námskeiðin eru á heimasíðu Námsmatsstofnunar, www.namsmat.is

 

 

Teymisvinna

Skóli án aðgreiningar grundvallast á starfsháttum sem laga sig að ólíkum nemendum með viðeigandi tilhliðrunum, aðlögunum og stuðningi til að skapa námsaðstæður fyrir alla nemendur. Kennarar bera sameiginlega ábyrgð á námi nemenda og verða að leita þess sem hindrar nám og þátttöku nemenda og bregðast við því á árangursríkan hátt. Teymisvinna er dæmi um starfshætti sem kennarar þurfa að tileinka sér eigi þeir að standa undir kröfum um nám við hæfi allra nemenda en tilgangur teymisvinnu er ávallt að efla nám og árangur skóla.

Teymi er tveir eða fleiri einstaklingar sem vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Undir vinnu getur fallið að setja markmið, skilgreina og leysa viðfangsefni, meta þarfir og kunnáttu nemenda, skiptast á upplýsingum, hugstorma, ná samstöðu og skipuleggja, framkvæma og meta áætlanir. Teymi grundvallast á sameiginlegum markmiðum og krefst jöfnuðar meðal þátttakenda þess. Það byggist á sameiginlegri ábyrgð og ákvarðanatöku. Árangur eða árangursleysi teymis er á ábyrgð alls teymisins. Teymisvinna krefst þess að þátttakendur deili björgum sínum hver með öðrum en teymisfærni þarf að læra og þjálfa til að ná árangri í teymisvinnu. Skilvirk teymi eru byggð á jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti. Þau beina athygli sinni bæði að teyminu sjálfu og að þeim nemendum sem það vinnur með.

Sumir skólar hafa verið duglegir að mynda teymi í kringum börn með sérþarfir, t.d. börn með málþroskaröskun, þó það liggi ekki fyrir hvort skólarnir hafi innleitt teymisvinnu meðal starfsmanna sinna. Eru teymin aðeins fundateymi – ákveðinn hópur sem hittir foreldra með reglulegu millibili – eða vinna teymin þétt saman allt skólaárið?

Ef teymisvinna á að vera skilvirk þurfa teymin að vinna ákveðna forvinnu: Teymisvinnu þarf að skilgreina og skýra, fara þarf í samsetningu og stærð teyma og kynna þarf undirstöðuaðferðir árangursríkrar teymivinnu.

Hver teymismeðlimur þarf t.d. að svara spurningunni: Hvað þarf til þess að ég finni mig örugga(n) og geti starfað í teymi á opinn og heiðarlegan hátt? Síðan þarf hvert teymið að fara yfir gildin sem þátttakendur þess hafa komið með og semja sameiginleg gildi teymisins án þess að þátttakendur gefi til kynna hvaða gildi þeir hafi persónulega lagt áherslu á.

Hver teymismeðlimur þarf líka að svara spurningunni: Hvernig þarf framgangur teymisfunda að vera til þess að teymið ráði við viðfangsefni sín?

Hver teymismeðlimur þarf að skilgreina styrkleika og sóknarfæri sín: Hvaða færni, hæfileika, þekkingu og reynslu ber ég með mér í teymið? Hvaðan kemur kunnátta mín? Hvaða stuðnings og úrræða þarfnast ég? Hvaða stuðning get ég veitt? Hvaða aðstæður reynast mér erfiðar? Er eitthvað sem ég óttast varðandi teymisstarf? Þegar hver þátttakandi hefur svarað þessum spurningum þá bera teymið saman svör sín og skráir almenna styrkleika og sóknarfæri teymisins.

Teymið þarf að hugsa um, ræða, skilgreina og skýra hlutverk og ábyrgð sína og útbúa hlutverkagátlista. Það að þekkja hlutverk sitt og ábyrgð er forsenda skilvirks teymisstarfs.

Teymið útbýr skriflega áætlun um hve oft, hvar og hve lengi fundartími mun standa, auk þess hvernig teymið geti best starfað með foreldum nemenda.

Í teymisvinnu fellst einnig að taka sameiginlegar ákvarðanir, að ákveða hvenær samkomulagi er náð og hvaða merki geta sagt til um vanda við ákvarðanatöku. Teymi þurfa að ákveða hvernig samskiptum þeirra er háttað á milli teymisfunda.