Árið 2011-2012 vann Rannsóknarstofa um þroska, mál og læsi skýrslu fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

 

Í lokaorðum bls. 13-14 kemur fram að svo til allir viðmælendur voru sammála um mikilvægi þess að börnum og ungmennum með frávik í tali og máli væri vel sinnt og þau fengju viðeigandi þjónustu. Margt bendir hins vegar til þess að kerfið sé of flókið og ekki nægilega skilvirkt auk þess sem það annar engan veginn því sem það þyrfti að gera. Langir biðlistar eftir greiningu og sérfræðiaðstoð tala þar sínu máli. Það er til dæmis alls ekki ásættanlegt að ung börn þurfi að bíða í allt að ár eftir að fá þá þjónustu sem þau þurfa. Of margar opinberar stofnanir bera ábyrgð, sjá um eftirlit og stefnumótun málaflokksins en hann tilheyrir tveimur ráðuneytum og bæði ríki og sveitarfélögum. Það þarf að móta skýrari reglur um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga (…). Það væri til bóta að koma málaflokknum á færri hendur og/eða skýra verksvið hvers og eins.

Foreldrar eru óánægðir með fyrirkomulag þjónustunnar, kalla eftir meiri þjónustu talmeinafræðinga og auknu samstarfi við skólana. Meirihluti þeirra vill að talþjálfun fari fram innan skólanna í stað þess að foreldrar þurfi að sækja sér hana annars staðar. Fagfólk og foreldrar eru sammála um að auka þurfi fræðslu til kennara og annars fagfólks um málþroskafrávik og málörvun og fjölga þurfi talmeinafræðingum. (…)

Flest bendir til þess að fjöldi barna með frávik í málþroska sé vangreindur. Þetta á sérstaklega við málþroskaraskanir – framburðarvanda er betur sinnt. Skimun vegna frávika á málþroska barna á leikskólaaldri þarf að vera samvinnuverkefni heilbrigðis- og menntakerfis með forvarnarstarfi og snemmtæka íhlutun að leiðarljósi. Snemmtæk íhlutun og markvisst málörvunarstarf í leikskólum eru afar mikilvæg til að draga úr og koma í veg fyrir langtímaáhrif málþroskafrávika. Með markvissum vinnubrögðum og samvinnu fagstétta og foreldra er hægt að lyfta grettistaki til að bæta málþroska barna á Íslandi.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: http://www.althingi.is/altext/140/s/pdf/1088.pdf

 

Málþroskaröskun getur haft áhrif á líf fólks alla æfi.

Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur 2013, snaraði yfir á íslensku.

 

Fólk með málþroskaröskun á barnsaldri getur haldið áfram að þjást af ýmsum tilfinningalegum vandamálum og hegðunarvanda sem fullorðnir, samkvæmt nýrri rannsókn frá Manchester háskólanum.

Áður fyrr var litið á röskun á málþroska (málþroskafrávik) sem vanda sem kom fyrir snemma á lífsleiðinni en að börn næðu jafnöldrum þegar þau yrðu eldri. Nýjar rannsóknir sýna að þetta er ekki alltaf raunin og að margir upplifa samskiptaerfiðleika á fullorðinsárum.

Margir erlendir rannsakendur hafa rannsakað hvaða áhrif sértæk málþroskaröskun hefur á ungt fólk. Einn þeirra er prófessor Girna Comti-Ramsden, en hún hefur fylgt eftir stærsta hópi breskra einstaklinga sem skilgreindir voru með sértæka málþroskaröskun á barnsaldri. Rannsóknin hefur verið nefnd tungumálarannsókn Manchester. Þátttakendur voru fyrst skilgreindir með málþroskafrávik þegar þeir voru 7 ára. Þeim var síðan fylgt eftir þegar þeir voru 8, 11, 16, 17 og 23 ára til að rannsaka hvaða áhrif tjáskiptaröskunin hefði á daglegt líf þeirra.

Það er ekki auðvelt að bera kennsl á fólk sem á í erfiðleikum með að nota móðurmálið sér til gagns. Það lítur út eins og venjulegt fólk og raunar er það venjulegt fólk. Það hefur margskonar færni og er skynsamt. Það er bara á einu sviði sem því skortir hæfileika og það er á tungumálasviðinu. Það að ná góðum tökum á málinu er erfitt fyrir það, eins og það getur verið erfitt að læra á píanó fyrir sumt fólk.

Því miður fyrir þennan hóp felur næstum allt sem við gerum, í sér að nota tungumálið. Meðal annars þurfum við málið til að geta tekið þátt í hinu hraða nútíma samfélagi, til að viðhalda tengslum, til að mennta okkur, fá vinnu, nota farsíma og tölvur o.fl. Allt felur þetta í sér að nota málið næstum hverja mínútu hvern einasta dag.

Sértæk málþroskaröskun er algeng röskun sem hefur áhrif á fimm til sjö prósent barna. Börn með sértæka málþroskaröskun eiga erfitt með að læra tungumálið þrátt fyrir dæmigerða heyrn. Þau eru heldur ekki með augljósan taugavanþroska.

Rannsóknin frá Manchester hefur sýnt fram á að fjölmargt ungt fólk sem var skilgreint með tungumálaörðugleika í bernsku á ennþá erfitt með að skilja talmál á fullorðinsárum, sérstaklega þegar hratt er talað. Rannsóknin sýndi að þetta unga fólk átti erfitt með að tjá þarfir sínar, sem leiddi til gremju og í sumum tilfellum langvarandi vanlíðanar.

Niðurstöður rannsóknanna sýna að ungmenni sem hafa sögu um sértæka málþroskaröskun telja sig eiga í félagslegum erfiðleikum þegar þau reyna að eiga samskipti við jafnaldra. Einnig kom fram að ungmennin eru oft með hegðunarvanda eins og ofvirkni sem lýsir sér í vanda við að stjórna eigin framkomu t.d. segjast þau verða fljótt reið og missa stjórn á skapi sínu. Því meiri vandi sem ungmennin glímdu við að skilja talað mál því líklegri voru þau til að segjast eiga erfitt á þessum sviðum.

Það að skilja illa talmál veldur ungmennum oft vandræðum í nútíma lífi t.d. til að viðhalda samböndum eða við að fá vinnu. Þörf er á frekari rannsóknum til að tryggja að ungmenni með sértæka málþroskaröskun fái þá hjálp sem þau þurfa.

Jafnvel þó að tal- og málþjálfun sé mjög mikilvæg fyrir börn með sértæka málþroskaröskun er tilhneiging til að draga úr þjónustu við þau með hækkandi aldri. Lítil hjálp býðst fullorðnum einstaklingum með sértæka málhömlun. Þeir eiga ekki rétt á þjónustu sem fullorðið fólk á vegum félagslega kerfisins (fötlunar-geirans), vegna þess að þau eru með verklega greind innan dæmigerðra marka. Of lítil þekking og skilningur er á aðstæðum þessa hóps og þess vegna fær hann hvorki hjálp á vegum félagslega kerfisins né í gegnum geðheilsu „kerfið“.

The Almagest, 25.12.2013 Language difficulties can last a lifetime. The Almagest LLC af http://www.thealmagest.com/language-difficulties-can-last-lifetime/8266