Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 segir :

21. gr. Skipulag sérfræðiþjónustu.

Á vegum sveitarfélaga skal rekin sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi leikskóla og starfsfólk þeirra. Sveitarfélög ákveða fyrirkomulag sérfræðiþjónustu en skulu stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskóla. Sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla getur verið rekin sameiginlega með sérfræðiþjónustu grunnskóla. Þá geta sveitarfélög sameinast um slíkan rekstur eða gert þjónustusamninga við önnur sveitarfélög, stofnanir eða aðila sem veita þá þjónustu sem þörf er fyrir hverju sinni. Ráðherra setur reglugerð um sérfræðiþjónustu leikskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

22. gr. Framkvæmd sérfræðiþjónustu.

Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Þjónusta þessi skal fara fram undir handleiðslu sérfræðinga samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra og sérfræðiþjónustu skv. 21. gr. í samráði við foreldra. Leikskólastjóri skal samræma innan hvers leikskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna skv. 21. gr. Jafnframt skal hafa samráð við félagsþjónustu sveitarfélaga vegna málefna einstakra barna eftir því sem þurfa þykir. Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á góð tengsl leikskóla og grunnskóla með samfellu í skólastarfi að leiðarljósi.

23. gr. Sérfræðingar í leikskólamálum.

Á vegum sveitarfélaga skulu starfa sérfræðingar í leikskólamálum er veita leikskólum ráðgjöf og stuðning við nýbreytni og skólaþróun. Þeir sinna einnig eftirliti með starfsemi leikskóla og stuðla að samstarfi þeirra innbyrðis og milli skólastiga.

Lesa má lögin í heild sinni hér : http://www.althingi.is/altext/stjt/2008.090.html