Sértæk málþroskaröskun

Á hverju hausti byrja um 4000 sex ára börn í grunnskólum landsins. Af þeim eru um 300 börn með erfiðleika við að nota mál og tal, sé stuðst við erlendar viðmiðunartölur (Tomblin, Smith, & Zhang, 1997). Sum barnanna eiga erfitt með að skilja mælt mál, önnur eiga erfitt með að tjá sig og sum þeirra eiga erfitt með hvort tveggja

Til eru börn sem þroskast að mestu leiti á dæmigerðan hátt nema á sviði máls og tals. Þau eru með eðlilega heyrn, hreyfiþroski  eru eins og jafnaldra, taugaþroski er eðlilegur. Verkleg greind er innan marka dæmigerðra barna en ekki munnleg greind. Þetta hefur verið kallað sértæk málþroskaröskun á íslensku (Specific Language Imparment, Leonard, 1998). Nánari greining á vanda þessara barna hefur sýnt að í samanburði við jafnaldra eiga þessir krakkar erfitt með að muna orð og læra merkingu orða og setningar þeirra eru styttri og einfaldari. Þau sleppa oft málfræðiendingum og smáorðum þegar þau mynda setningar,  misheyra oft það sem sagt er við þau og framburður er stundum óskýr. Þau eru ekki eins dugleg og jafnaldrar að biðja um útskýringar ef þau skilja ekki það sem fram fer og þau leiðrétta ekki viðmælanda sinn ef þau eru misskilin.

Þegar þessir einstaklingar hefja skólagöngu hafa þau frá fyrsta degi minni möguleika á að tileinka sér námsefnið en skólafélagarnir því þau hafa ekki það vald á máli og tali sem miðað er við að 6 ára börn hafi. Mörg þessara barna eiga erfitt með að læra að lesa m.a. vegna frávika í málþroska og erfiðleika við undirstöðuatriði lesturs. Þar með er hafinn ferill neikvæðara upplifana í skólanum. Þeim gengur illa að læra að lesa sér til gagns og ánægu og eiga þá jafnframt erfitt með að tileinka sér námsefnið. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt að þessi hópur sem stendur sig  illa á samræmdum prófum í íslensku í 4. bekk (Jóhanna Einarsdóttir, Amalía Björnsdóttir & Ingibjörg Símonardóttir, 2004).

Ekki hefur verið hægt að finna eina orsök fyrir seinkun í málþroska heldur bendir margt til að samspil margra þátta valdi þroskaröskuninni. Mjög sennilegt er að þróunin byrji strax í upphafi máltökunnar hjá flestum. Sumt virðist ráðst af umhverfi en annað af erfðum.  Mál og tal eru flókin fyrirbrigði og til að barn mælist með frávik þarf  seinkun að koma fram á fleiri en einum þætti máls og tals. Einkennin koma oft snemma fram en tilhneiging er til að bíða og sjá til hvort ekki rætist úr ástandinu. Rannsóknir benda til að tal- og máþroskafrávikin fylgi mjög mörgum þeirra upp alla skólagönguna þó einkennin breytist með árunum (Thordardottir, 2008; Wadman, Durkin, & Conti-Ramsden, 2008). Að bíða og sjá til er úrræði sem er óásættanlegt og að forðast að skilgreina vandann hjálpar ekki börnum sem ekki læra málið sem fyrir þeim er haft. Börn með sértæka málþroskaröskun þurfa sérhæfð úrræði til að hjálpa þeim að ná tökum á tilverunni.

Þóra Sæunn Úlfsdóttir M.S. CCC-SLP, Talmeinafræðingur