Foreldranámskeið talmeinafræðinga á Suðurlandi.

Laugardaginn 30. maí sl. héldu talmeinafræðingar á Suðurlandi (Anna Stefanía Vignisdóttir, Álfhildur Þorsteinsdóttir, Hólmfríður Árnadóttir, Sigríður Arndís Þórðardóttir og Þóra Sæunn Úlfsdóttir) námskeið fyrir foreldra barna með málþroskaröskun. Námskeiðið var haldið í Vallaskóla og styrkt af skólaþjónustu Árborgar og Málefli, hagsmunasamtökum barna með málþroskaraskanir. Fjallað var um eftirfarandi atriði: – Hvað er málþroskaröskun? – Hvað geta foreldrar gert til að örva málþroska barna sinna? – Mikilvægi lesturs og hljóðkerfisvitundar. Eftir námskeiðið var tími fyrir spjall og komu talmeinafræðingar með þjálfunargögn, spil, bækur o.fl. sem foreldrar gátu skoðað og lært hvernig nota má efnið með börnunum. Almenn ánægja var með námskeiðið hjá þátttakendum og er það liður í eflingu foreldrafræðslu á svæðinu.

Tekið af síðu sveitarfélags Árborgar.

Aðalfundur Máleflis

Aðalfundur Máleflis verður haldinn mánudaginn 27. apríl kl. 19:30.

Staðsetning : Dunhagi 7, 107 Reykjavík – Endurmenntun Háskóla Íslands.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kynningar :
  • Leikum og lærum með hljóðin – app – Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur
  • Sjö spilastokkar – þjálfun hljóðkerfisvitundar – Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur
  • Að vera velferðarvörður barns með málþroskaröskun – Jóhanna Guðjónsdóttir móðir barns með málþroskaröskun og sérkennari

Hér er gott tækifæri til að fræðast um og kynnast starfi Máleflis.

Allir hjartanlega velkomnir.

Kaffihúsahittingur foreldra

Á síðasta foreldranámskeiði fundum við fyrir því hvað foreldrar og aðstandendur innan félagsins þurfa svigrúm og vettvang til að ræða saman um það sem þau eiga sameiginlegt. Að eiga barn eða ungmenni með tal eða málþroskaröskun. Þessvegna langar okkur að halda kaffihúsakvöld þar sem þið eruð velkomin að koma í þægilega stemningu og spjalla saman :) Frábær leið til að deila reynslusögum, leita eftir ráðum og fá að vita að maður er ekki alveg einn í þessu öllu saman :)

Við ætlum að hittast á Café Meskí í skeifunni kl 20.00 og býður Málefli upp á smá kaffi og veitingar :) Hlökkum til að sjá ykkur!

Dagur Máleflis

Dagur Máleflis laugardaginn 7. september 2013 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Ágætu félagsmenn

Dagur Máleflis verður að þessu sinni helgaður fjölskyldunni. Málefli hvetur félagsmenn og fjölskyldur þeirra til að taka daginn snemma og að hittast í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum kl. 11. Félagsmenn fá 10% afslátt af aðgangseyri en 50% afsláttur er af dagpössum þennan dag. Málefli býður upp á ratleik og grillaðar pylsur og svala í hádeginu.

Auk hefðbundinnar dagskrár Fjölskyldu- og húsdýragarðsins þennan dag er uppskeruhátíð býbænda, sultukynning Kvenfélagasambands Íslands og Íslandsmót í Hálandaleikum.

Fjölmennum!

Stjórn Máleflis

Es. Við mælum okkur mót rétt innan við hliðið.