Fyrsta námskeiðið Mál er Máttur á vegum Máleflis heppnaðist vel

Þann 25.október síðastliðinn var haldið fyrsta námskeiðið á vegum Máleflis, „Mál er Máttur“ til eflingar foreldrum barna með málþroskaraskanir.  Sjá má auglýsinguna hér.  Breyta þurfti staðsetningu vegna mikillar aðsóknar og námskeiðið var haldið í Norðlingaskóla í Norðlingaholti.  Kynning á spilum og leikjum var einnig efld til muna og sett var upp eftirfarandi fræðsluhringekja fyrir foreldra í síðasta hluta námskeiðsins:

  1. Þóra Sæunn Úlfsdóttir og Tinna Sigurðardóttir talmeinafræðingar kynntu ýmis spil sem þær nota í talþjálfun barna.
  2. Spilavinir kynntu spil sem henta við málörvun barna.
  3. Anna Margrét Ólafsdóttir frá paxel123.com kynnti samnefndan verðlauna vef.

Það komust færri að en vildu og þótti námskeiðið hafa heppnast mjög vel.  Sjá má hér heildarniðurstöðu könnunar sem sýnir okkur heildarmat þeirra foreldra sem sátu námskeiðið.

malermattur

Námskeiðið heppnaðist mjög vel að mati Máleflis og foreldra en alltaf má gera betur og munum við hafa það að leiðarljósi fyrir næsta námskeið. Málefli var t.d. ljóst að gera þyrfti ráð fyrir tíma þar sem foreldrar gætu deilt sinni reynslu, fengið ráðleggingar frá öðrum foreldrum og fagfólki námskeiðsins.  Stefnan er einnig sett á að reyna komast á móts við fólks á landsbyggðinni með einum eða öðrum hætti.  Látum hér fylgja nokkrar myndir frá námskeiðinu.

agust2014-205 agust2014-207 agust2014-212 agust2014-214  agust2014-215agust2014-224 agust2014-227

 

Þjónustusími Máleflis opnaður

Málefli hefur opnað símann 841-7961 sem er opinn öllum sem hafa spurningar sem varða börn og ungmenni með tal og málþroskaraskanir. Þeir sem hringja í símann þurfa að leggja inn nafn, erindi og símanúmer í talhólfið. Stjórn félagsins skiptist á að svara í símann og hefur að markmiði að hafa samband við fyrirspyrjendur innan þriggja virkra daga. Það er von félagsins að þessi nýjung mælist vel fyrir.

Málefli

 

Að loknum aðalfundi 2014

Aðalfundur Máleflis var haldin 26. mars og tókst hann með ágætum. Fundurinn er fjölmennasti aðalfundur félagsins, aðeins stofnfundurinn 2009 var fjölmennari. Á aðalfundinum var farið yfir skýrslu stjórnar, endurskoðaða reikninga og kosið í nýja stjórn.  Kristín Guðlaug Guðfinnsdóttir og Kristján Geir Fenger gengu úr stjórn og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir óeigingjörn stjórnarstörf í þágu Máleflis. Þau ætla að starfa áfram fyrir Málefli. Fjóla Heiðdal Steinarsdóttir og Áslaug Hreiðarsdóttir hlutu kosningu í stjórn og eru þær boðnar velkomnar til starfa. Að auki kemur Bryndís Krogh Gísladóttir inn í vinnuhóp Máleflis. Fundurinn samþykkti að breyta 3. grein félagsins, þannig að núna falla félagar út af félagaskrá þegar þeir hafa ekki greitt félagsgjöld í fjögur ár. Áhersla Máleflis fyrir næsta starfsár er að vinna áfram í heimasíðunni, stofna vísindasjóð Máleflis og standa fyrir dagsnámskeiði í samvinnu við talmeinafræðinga fyrir foreldra og aðstandenda barna með málþroskafrávik. Á aðalfundinum var kynnt málörvunarefni sem gagnast börnum með málþroskafrávik.

Ragnhildur Gunnarsdóttir fyrrverandi sérkennslustjóri kynnti efni sem hún hefur gefið út á Internetinu sem kallast Myndmál.  Myndmál er myndrænt orðasafn fyrir leikskóla- og grunnskólabörn til að  læra íslensku með myndum, ljóði og texta, í einföldum útgáfum. Myndmál gerir fagfólki/foreldrum kleift að halda utan um frammistöðu nemenda/barna sinna á einfaldan og þægilegan máta. Myndmál nýtist einnig vel sem kennsluumhverfi fyrir fólk af erlendu bergi brotnu, börn með þroskahamlanir, unga einstaklinga með einhverfu og ýmsa aðra samfélagsþegna. Hægt er að kynna sér þetta efni og sækja um prufuáskrift á www.myndmal.is.

Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri kynnti vefinn paxel123.com en vefurinn fékk fyrstu verðlaun fyrir besta barnaefnið á netinu þann 5. febrúar 2013 í tilefni af Alþjóðlega netöryggisdeginum. Hægt er að velja um 9 tungumál. Vefurinn er ætlaður nemendum á leik – og grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í því að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði. Markmiðið er að örva læsi í stærðfræði og móðurmáli með örvandi tölvuleikjum. Aðgangur að vefnum er ókeypis.

Hanna Kristín Skaftadóttir foreldri barns með málþroskaröskun kynnti bækur sem hún og maðurinn hennar hafa unnið og eru að gefa út. Von er á 4 bókum í verslanir nú í apríl en 4 til viðbótar í burðarliðnum.  Bækurnar eru harðspjalda og sýna tákn með tali á aðgengilegan hátt. Hanna lýsti því hvernig táknin hjálpa syni hennar með tjáskipti og hversu mikilvægt það er fyrir hann að allir í hans nærumhverfi geti átt samskipti við hann með þessum hætti. Hún tók sem dæmi þegar barnið gistir hjá ömmu og afa þá þurfa þau að skilja tákn þess. Bækurnar hjálpa þeim sem þurfa að tjá sig með táknum og þeim sem vilja og þurfa að skilja táknin. Undanfarin ár hefur komið í ljós að aðferðin nýtist vel í fjölmenningarlegu umhverfi svo sem í leikskólum og skólum. Aðferðin er málörvandi fyrir öll ung börn og því óhætt að hvetja foreldra og kennara ungra barna að nota TMT sem skemmtilegt málörvunartæki sem um leið hjálpar þeim sérstaklega sem á þurfa að halda. Hægt er að kynna sér MiMi efnið á https://www.facebook.com/mimibooks og eins er búið að gefa bækurnar út rafrænt og má nálgast þær á www.emma.is

Öll þessi erindi voru fræðandi og skemmtileg. Stjórn Máleflis færir Ragnhildi, Önnu Margréti og Hönnu Kristínu bestu þakkir fyrir kynningarnar og óskar þeim velfarnaðar í áframhaldandi útgáfu í þágu barna.

 

Aðalfundur Máleflis 2014

Aðalfundur Máleflis verður haldinn miðvikudaginn 26. mars kl. 19:30

í fundarsal Öryrkjabandalags Íslands, Hátúni 10, Reykjavík

 Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Kaffihlé – léttar veitingar í boði félagsins
  • Kynningar    

                Myndmál, myndrænt orðasafn fyrir börn

                Ragnhildur Gunnarsdóttir sérkennslustjóri

                Paxel123.com

                Anna Margrét Ólafsdóttir leikskólastjóri

                Bækurnar um MiMi

                Hanna Kristín Skaftadóttir móðir barns með málhömlun og útgefandi

Allir hjartanlega velkomnir –  nýtið gott tækifæri til að fræðast um og kynnast starfi Máleflis.

 

 

Fjölmiðlar

Föstudaginn 18. október 2013 var fjallað um málefni barna með málþroskafrávik í fréttum stöðvar 2. Þar var talað við Þóru Sæunni Úlfsdóttir talmeinafræðing sem sagði frá því að í skýrslu sem unninn var fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið á síðastliðnu ári kom fram að foreldrar vilja fá talkennslu inn í skólanna.  

Hér má horfa á fréttina: Staða barna með málþroskaraskanir: „Tjáskipti eru mannréttindi“  : http://visir.is/stada-barna-med-malthroskaraskanir—tjaskipti-eru-mannrettindi-/article/2013131018882

 

Félagsgjöld 2013

Kæru félagsmenn í Málefli.

Þið hafið nú fengið send félagsgjöld Máleflis fyrir árið 2013. Félagsgjöldin eru óbreytt frá því í fyrra (reyndar frá upphafi) 1500 kr.  Félagsgjöldin fóru inn í heimabanka ykkar sem valkvæð greiðsla. Við biðjum ykkur að greiða þau sem fyrst.

Stjórnin.

Starfshópur endurskoðar málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun

Þann 24. janúar sl. var mennta- og menningarmálaráðherra falið að endurskoða málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun. Í framhaldi skipaði ráðherra starfshóp sem í sitja Ragnheiður Bóasdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Þór G. Þórarinsson frá velferðarráðuneytinu og Svandís Ingimundardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ragnheiður er formaður hópsins og Hrönn Pétursdóttir ráðgjafi er verkefnastjóri.

Endurskoðunin á að leiða til markvissrar aðgerðaáætlunar og á að byggja á skýrslu um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun sem unnin var árið 2012 af Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi (sjá undir flipanum Fræðsla/Rannsóknir og skýrslur). Starfshópurinn ráðgerir að skila inn tillögum í apríl 2014.

Starfshópurinn hefur haft samband við á fjórða tug hagsmunaaðila, þar á meðal er Málefli.

 

 

Fundur Máleflis og HTÍ

Á síðasta degi októbermánaðar 2013 átti stjórn Máleflis fund við tvo starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Það voru þau Kristján Sverrisson forstjóri og Þóra Másdóttir á Talmeinasviði sem sátu fundinn fyrir hönd HTÍ. Fundurinn var haldinn af frumkvæði Kristjáns sem vildi kynna sér starfssemi hagsmunasamtaka sem tengdust störfum HTÍ.  Eftir fundinn er ljóst að HTÍ og Málefli geta tekið upp samstarf, t.d. hvað varðar efni á heimasíðum beggja aðila, gerð kynningarbæklinga og fræðslu til foreldra og fagstétta sem sinna börnum og ungmennum með tal- og málþroskaraskanir.  Já, sameiginlegir fletir eru vissulega til staðar en tíminn verður að leiða í ljós hvort af samstarfi verði.